• show blocks helper
      
Heim / Viðtöl / Þrjár kynslóðir saman í Crossfit

Þrjár kynslóðir saman í Crossfit

Nýverið lauk undankeppninni fyrir Íslandsmótið í Crossfit þar sem mörg hundruð manns tóku þátt. Á Akureyri tóku þær Selma, Ólöf Maren og Ólöf Magnúsdóttir þátt en þær skipa þrjár kynslóðir af fjölskyldu sinni, Ólöf Maren 13 ára, Selma 33 ára og Ólöf eldri 54 ára. Selma Malmquist er fyrrum markmaður hjá KA í handboltanum og snéri sér að Crossfit eftir að handbolta ferlinum hennar lauk. Dóttir hennar Ólöf Maren byrjaði 10 ára gömul að stunda Crossfit og keppti m.a nýverið á landsmóti í ólympískum lyftingum. Ólöf eldri fór úr því að hafa aldrei stundað neina íþrótt yfir í það að byrja í Crossfit, taka þátt í Crossfit Games Open og undankeppni Íslandsmótsins í Crossfit. Við tókum tali af Selmu og spurðum útí Crossfit iðkunina hjá fjölskyldunni.

12178094_10153636062930549_519730923_n

12077412_10153599343685549_756075657_n

Hvernig kom það til að dóttir þín og móðir byrjuðu líka í Crossfit? Dróst þú þær með eða var það þeirra frumkvæði?

Það var alveg þeirra ákvörðun að byrja en ég segi ekki að þær hafi ekki orðið fyrir örlítilli pressu til að byrja með. Það var nú samt yngri systir mín, Ingibjörg, sem einnig tók þátt í undankeppninni, sem byrjaði fyrst af okkur í Crossfit og ber því raun ábyrgð á því að við séum allar komnar á fullt í þessu sporti.

Er eitthvað annað rætt við matarborðið en Crossfit?

Það er voðalega lítið, manninum mínum til mikillar ánægju, hann er ekki eins forfallinn og við hin í fjölskyldunni.

Hvernig gekk ykkur í undankeppninni?

Okkur gekk bara vel og unnum okkur allar þátttökurétt í lokakeppninni. Það er ennþá aðeins á huldu hvort við stígum allar skrefið og tökum þátt en það kemur í ljós.

Hvernig tókst Ólöfu eldri að koma sér inní Crossfit? Eitthvað sérstakt sem þú mælir með að konur á hennar aldri hugi að við svona lífstílsbreytingu?

Henni fannst þetta áhugavert en eins og svo margir aðrir sem eru ekki í topp formi þá hélt hún að þetta væri samt ekki eitthvað fyrir sig. Við systur vorum búnar að pressa aðeins á hana og reyna að telja henni trú um að þetta væri ekkert minna fyrir hana en aðra. Hún gaf sig samt ekki en svo um þar síðustu áramót laumaðist hún til að skrá sig á grunnnámskeið án okkar vitundar og hefur ekki stoppað síðan.        

12084153_10153599343150549_985408209_n

Hvernig leist þér á þegar dóttir þín sagðist vilja fara að æfa Crossfit?

Mér fannst það bara snilld, enda frábær leið fyrir krakka til að stunda styrktar- og þolþjáfun. Hún var á þeim tíma að æfa sund og þótti þrekæfingar afskaplega leiðinlegar. Crossfitið er ekkert annað en styrkur og þrek en krakkarnir eru jákvæðir og hafa gaman að.

Nú hefur þú verið að bjóða Crossfit sem val fyrir krakka í 8. til 10. bekk – hvernig hefur það gengið? Hvernig hafa skólayfirvöld og foreldrar tekið í þetta?

Þessari nýjung var mjög vel tekið og yfir 150 krakkar í 8.-10. bekk sóttust eftir greininni en því miður komst bara tæplega helmingurinn að. Krakkarnir eru mjög ánægðir með þetta og ég hef ekki heyrt frá neinum foreldrum sem eru það ekki líka.

Hversu oft mæta þeir í Crossfit í þessum valáfanga? Er þetta þá í staðinn fyrir aðra íþróttakennslu í grunnskóla?

Þetta er bara 1 tími á viku, allir í 8-10 bekk á Akureyri velja sér 3-4 námsgreinar til viðbótar við skyldunámskgreinarnar og er Crossfitið ein af þeim.

Heldur þú að það verði algengara á komandi árum að börn á þessum aldri snúi sér að Crossfit og slíkum æfingum í stað þess að fara hefðbundnari leiðir eins og boltaíþróttirnar?

Til að byrja með voru þetta meira krakkar úr öðrum íþróttagreinum sem voru að bæta Crossfitinu við eða krakkar sem höfðu ekki fundið sig í annarri hreyfingu. Núna er einn og einn sem bara æfir Crossfit og þá með keppni í huga. Unglingaflokkurinn er ekki stór núna á Íslandsmótinu en hann á klárlega eftir að vaxa og það eru nú þegar nokkrir sem stefna á þátttöku á næsta ári.

Crossfitið er líka svo skemmtilegt að það geta allir tekið þátt og bilið milli þeirra sem eru bestir og hinna er ekki eins æpandi og í öðrum íþróttagreinum. Við leggjum mikla áherslu á að hver og einn sé að vinna á sínum forsendum og skali eftir þörfum.

12087475_10153599343080549_1348643679_n

Hvað finnst þér um þá skoðun að ungir krakkar eða unglingar eiga ekki að vera að lyfta lóðum því það geti haft nekvæð áhrif á vöxt þeirra?*
Það er örugglega eitthvað til í því að þungar lyftingar geti haft neikvæð áhrif á vöxt barna og unglinga en það á klárlega líka við um of mikla þjálfun í öllum íþróttum. Í unglingatímum erum við mikið að vinna með eigin líkamsþyngd og svo bjöllur og bolta. Hvað lyftingarnar varðar erum við ekki að vinna með miklar þyngdir heldur frekar fleiri endurtekningar.
Að lokum hvaða ráðleggingar hefur þú til þeirra sem vilja koma fjölskyldumeðlimum sínum með sér inn í Crossfit stöðina sína?
Ég veit svo sem ekki hvað ég get ráðlagt fólki almennt, frekar að stöðvarnar séu duglegar að bjóða fólki að koma til sín. Við erum t.d með fjölskylduæfingu núna næstkomandi laugardag, hún er að sjálfsögðu fyrir alla fjölskyldumeðlimi og um að gera að draga unga sem aldna með sér. Og svo bara hvetja alla til þess að koma og prufa og kynna fólk fyrir skölunum alveg frá upphafi. Skölun er eitt lykil atriðið í Crossfit, það er hægt að útfæra allar æfingar við allra hæfi svo allir fái sem mest út úr henni, það er bara þannig.
 
* Rannsóknir benda ekki til þess að lyftingar hjá ungu fólki hafi neikvæð áhrif á vöxt þeirra