Þann 6. september næstkomandi eru 10 ár liðin frá því að tveir menn stofnuðu líkamsræktarstöðina Boot Camp. Fyrirtækið var stofnað árið 2004 af þeim Arnaldi Birgi Konráðssyni og Róberti Traustasyni og hefur það vaxið úr örfáum meðlimum í litlum sal í Skeifunni, upp í fyrirtæki með víðamikla starfsemi í 1400 fermetra rými í Elliðaárdalnum með yfir 1.000 kúnna. Dæmi um starfsemi sem má finna í Elliðaárdalnum eru hefðbundnar Boot Camp æfingar sem fyrirtækið hefur byggt að mestu leyti á, Crossfit Stöðin, styrktar- og þol tímarnir Strength & Conditioning, Grænjaxlatímar, hlaupa- og hjólahópar og fjölmargt fleira.
Við tókum tal af Róberti Traustasyni, stofnanda og rekstrarstjóra Bootcamp.
Segðu okkur í stuttu máli hvernig þetta byrjaði allt saman?
Biggi hafði fengið boð frá Hnefaleikafélagi Reykjavíkur að byrja með einhvers konar þrekþjálfun fyrir þá sem höfðu meiri áhuga á þreki heldur en hnefaleikum. Hann bað mig um að vera hluti af þessu og ég sló til, þetta var fyrsta skref mitt í þjálfuninni en ég hafði nýlokið einkaþjálfaraprófi hjá ISSA. Við höfðum sjálfir verið að æfa svona í dágóðan tíma og vissum því alveg hvernig við vildum haga æfingunum og hverju þær myndu skila. Það voru síðan 20 manns sem byrjuðu hjá okkur í september 2004, sú tala jókst í 50 manns fljótlega eftir áramótin og þannig byrjaði boltinn að rúlla.
Hét þá þetta nýja verkefni “Boot Camp” frá upphafi með núverandi lógó-i og öllu?
Já, Biggi hafði fengið þetta lógó í tengslum við raunveruleikaþætti sem áttu að vera framleiddir á Íslandi en það varð svo ekkert af því og hann átti því þetta flotta nafn og lógó sem beið bara rétta tækifærisins.
Sáuð þið fyrir ykkur á fyrstu árunum að þið ættuð möguleika á að stækka upp í núverandi starfsemi?
Já, við vorum alltaf með þann draum í maganum að komast í eigið húsnæði og að lokum að opna stöð eins og okkur hefur tekist í dag. Þannig að þetta hefur gengið allt eins og við lögðum upp með frá upphafi. Við vorum samt aldrei að flýta okkur að taka næstu skref og höfum leyft okkur að þróast á eðlilegan hátt. Mestu máli skiptir að okkur finnst við hafa verið trúir okkar sýn allan tímann og höfum náð að byggja þetta upp á þann hátt sem við vildum.
Þið voruð einhverjir allra fyrstu að bjóða upp á svona ólíka líkamsþjálfun sem er ekki kennt sem einstaka námskeið í líkamsræktarstöðvunum, hvernig var ykkur tekið í byrjun, bæði af kúnnunum ykkar og risunum á líkamsræktar markaðinum?
Það var ekkert í gangi í líkingu við það sem við erum að gera þegar við fórum af stað. Flestir sem æfðu áttu kort í einhverri líkamsræktarstöð og þekktu því ekki það æfingaumhverfi sem við buðum upp á. Það þurfti því nokkra hugdjarfa einstaklinga til að prófa til að orðsporið færi af stað. Við heyrðum svo fljótt að “sérfræðingar” í bransanum hefðu ekkert allt of gott um okkur að segja, þótt að þeir hefðu í raun ekki hugmynd um það hvað við vorum að gera. Það er því miður algengt í heimi þjálfunar að um leið og einhverjum gengur vel þá heyrist hátt í sumum samkeppnisaðilum. Skömmu síðar voru þessir sömu aðilar farnir að bjóða upp á námskeið í “herþjálfun” og vildu því græða á vinsældum okkar en það er ekki nóg að skella einhverju nafni fram. Þetta er ekki bara spurning um að hafa flottar umbúðir – það er innihaldið sem skiptir máli. Það er reyndar skondið að sumum stærstu stöðvunum hafi fundist standa ógn af okkur í upphafi þegar við vorum enn í Faxafeninu með einhverja 200 meðlimi þegar þær voru með fleiri þúsundir áskrifenda. Það er ennþá stór hópur fólks þarna úti sem hreyfir sig ekki að staðaldri og ekkert að því að hafa eins fjölbreytta hreyfingu og hægt er – þá ættu flestir að geta fundið sér eitthvað við sitt hæfi.
Nú hefur maður heyrt að fyrstu árin hafi harkan verið rosaleg á æfingum og þær svipað mun meira til Navy Seal æfinga eins og fyrirmyndin er heldur en í dag, er eitthvað til í því og ef svo er, var það meðvituð áherslubreyting hjá ykkur?
Já og nei. Við höfum þroskast og lært svo mikið í gegnum tíðina hvernig best er að setja upp æfingarnar svo þær skili sem mestum árangri án þess að fara yfir strikið. Við viljum að okkar meðlimir geti æft hjá okkur nokkrum sinnum í viku án þess að það trufli aðra þætti lífsins s.s. vinnu eða aðra hreyfingu. Það er lítið vit í því að koma á svo ógurlega æfingu á mánudegi að maður getur vart hreyft sig næstu fjóra dagana. Margir hjá okkur æfa aðra hluti samhliða Boot Camp æfingunum því þær gefa góðan grunn fyrir svo margt, andlega og líkamlega. Í dag er líka breiðari hópur að æfa hjá okkur en nokkru sinni fyrr og æfingarnar betur samsettar þannig að þær virka jafnt fyrir þá sem eru í svaðalegu formi sem og þá sem eru rétt að komast af stað. Nokkrir af þeim sem komu á fyrsta námskeiðið okkar eru enn að æfa hjá okkur í dag, 10 árum síðar sem sýnir að þetta getur verið lífsstíll og eitthvað sem fólk getur gert til frambúðar.
Hvernig hefur Crossfit væðing Íslands síðustu árin haft áhrif á kjarnastarfsemi ykkar sem er Bootcamp herþjálfunin?
Ég tel að það hafi bara gert okkur gott. Við vorum alltaf andstæðan við þessar klassísku líkamsræktarstöðvar en núna eru komnar fleiri óhefðbundnar stöðvar eins og CrossFit stöðvarnar og Mjölnir. Stærri hópur fólks er því farinn að átta sig á að það er meira úrval þarna úti og fleiri þora að prófa og ná árangri. Það er þannig sem boðskapurinn kemst best til skila því fólk sem nær árangri er besta hvatningin fyrir aðra. Í flestum þrekkeppnum landsins kemur meirihluti keppanda frá okkur og CrossFit stöðvunum svo það hefur myndast sérstök menning þrekkeppenda sem er frábært. Það væri ekki raunin ef við værum “einir” í því sem við gerum. Margir af okkar meðlimum stunda jafnvel Boot Camp og CrossFit saman. Þrátt fyrir ólíkar áherslur í þessu tvennu þá eiga þessi æfingakerfi margt sameiginlegt og geta stutt vel við hvort annað enda bjóðum við einnig upp á CrossFit í CrossFit Stöðinni.
Við höfum ávallt okkar sérstöðu á því að Boot Camp er okkar hugarfóstur sem hefur verið þróað frá upphafi – það er því enginn sem býður upp á það sama. Eins höfum við komið með önnur námskeið s.s. Grænjaxla, Skæruliða fyrir krakka og unglinga og svo það nýjasta: Strength & Conditioning. Allt eru þetta hlutir sem við höfum byggt upp frá grunni með okkar eigin áherslum.
Hvert er þitt hlutverk hjá Bootcamp í dag? Rekstrarstjóri, þjálfari, eigandi?
Þegar maður vaknar á morgnana þá er það ekki til þess að setja sig í einhverjar ákveðnar stellingar heldur bara að gera allt sem maður getur til að hjálpa fólki að ná árangri. Á týpískum degi fer tíminn að mestu í þjálfun og að útbúa prógröm, að svara tölvupóstum og veita meðlimum okkar ráðgjöf. Auk þess þarf að sinna samfélagsmiðlunum, skipuleggja viðburði og ýmislegt annað sem manni dettur í hug. Fyrir mér skiptir öllu máli að fólk nái árangri hjá okkur og hafi gaman af því umhverfi sem einkennir starfsemi okkar. Hlutverk mitt er því margþætt, fjölbreytt og virkilega skemmtilegt.
Nú reynir þú væntanlega að “practice what you preach” og halda þér í góðu líkamlegu ásigkomulagi ásamt því að eiga og sinna fyrirtæki. Hvernig gengur það samhliða starfinu?
Það er klárlega mikilvægur hluti af þessu enda eitt af því sem við leggjum áherslu á í þjálfaraprófi Boot Camp er að þjálfarar bjóða meðlimunum ekki upp á eitthvað sem þeir hafa ekki upplifað sjálfir í einhverri mynd. Við þjálfararnir notum því okkar æfingar í að prófa alls kyns hluti sem enda oftar en ekki í þjálfuninni. Það fer samt óneitanlega mikil orka í starfið og því getur maður ekki alltaf æft eins mikið og manni langar. Ég reyni þó alltaf að taka góðar æfingar 4-5 sinnum í viku og halda mér eins hraustum og hægt er. Ég legg áhersluna samt mest á heilbrigði og reyni að stunda lífsstíl sem ég tel mig geta haldið út ævina: ég vil enn geta gert sömu hlutina þegar ég er sextugur og verið léttur í lund.
Þá að alvarlegu málunum svona í kjölfarið af þessari umræðu, komdu með tölurnar!
Bekkpressa: 135kg
Hnébeygja: 140kg
5km hlaup: 20:20 (er alveg að fara að brjóta þennan $%&$ 20 mín múr!)
Dauðar upphífingar: 30 stk
Mér finnst lítið að marka tölur sem maður hefur á einhverjum tímapunkti náð og horfi frekar á þær tölur sem ég veit að ég get tekið nánast hvaða dag sem er. Allar þessar tölur eru því miðað við ástandið á mér í dag og hef tekið á sl. mánuði.
Sérðu fyrir þér að Elliðárdalurinn verði lokastaðsetning Boot Camp á Íslandi? Hvar sérðu fyrir þér fyrirtækið eftir 10 ár bæði hvað varðar stærð og staðsetningu?
Það er ómögulegt að segja til um það fyrir víst. Við erum virkilega ánægð á núverandi stað enda hentar þetta okkur fullkomnlega og við heyrum að allir eru ánægðir hérna. Okkur langar að koma okkur enn betur fyrir hérna og munum vinna það jafnt og þétt. Það er vandasamt að stækka stöð sem fólki líður vel á en það hefur tekist vel að halda góða andanum og hann kom greinilega með okkur frá Suðurlandsbrautinni. Stærðin er því ekki aðalatriðið fyrir okkur heldur að öllum meðlimum og starfsfólki líði vel þegar þau koma hingað. Við erum þéttur og góður hópur og á meðan stemmningin er til staðar, þá erum við sáttir.
Kæmi til greina að stækka sjálfa stöðina í Elliðárdalnum ef áhugi er fyrir því? Er það raunverulegur möguleiki hvað varðar það rými sem er til staðar í norðurhluta byggingarinnar?
Það er já laust pláss í samtengdu húsnæði en eins og staðan er akkúrat í dag þá erum við ekki á leiðinni að stækka húsnæðið meira.
Að lokum hvaða ráð hefur þú fyrir eigendur og stjórnendur smárra fyrirtækja sem eru að reyna að stækka fyrirtækið sitt á komandi árum?
Í grunninn myndi ég ráðleggja þeim að vega og meta öll stór skref vel en ekki ana út í eitthvað að illa ígrunduðu máli. Það getur verið freistandi að stækka en það þarf ekki alltaf að vera rétta skrefið. Ekki má gleyma að huga vel að kjarnastarfseminni og að skrefið til stækkunar muni koma henni til góðs. Öllum svona ákvörðunum fylgir vissulega einhver áhætta og því þarf bara að meta hana vel og vera viss um að hún sé þess virði.