Heim / Umfjöllun / Meðalaldur Crossfit keppenda á niðurleið

Meðalaldur Crossfit keppenda á niðurleið

Um leið og undirritaður dáðist að árangri Íslendinga á heimsleikunum í Crossfit og horfði upp á þjóð sína hirða 50% af pallsætum í einstaklingkeppninni, komst hann ekki hjá því að taka eftir einu. Meðalaldur kvenkyns keppenda á pallinum var 22 ára! Við nánari athugun reyndist meðal aldur keppenda í karlaflokki á pallinum vera 24 ára. Hjá konunum voru þær allar 22 ára gamlar en Björgvin Karl er 22 ára og Mat Fraser og Ben Smith báðir 25 ára (skv. Games prófílnum þeirra rétt eftir heimsleikana).

Er þetta lár meðalaldur? Eða er þetta í takt við það sem hefur verið síðustu ár á heimsleikunum í Crossfit? Er Crossfit að verða sport fyrir 25 ára og yngri eða eiga þeir sem eru að nálgast þrítugsaldurinn einhvern séns lengur? Hvernig hefur þetta verið síðustu ár? Hvernig er aldursdreifingin eftir sætum?

Leitað var svara við þessum spurningum með því að rýna í tölfræðina síðustu 6 heimsleika eða frá árinu 2010 til 2015. 

Screen Shot 2015-08-26 at 12.54.59

Í ár var meðal aldurinn á pallinum sá lægsti síðustu 6 keppnisár hjá báðum kynjum. En hvað með meðal aldur allra keppenda? Er sá aldur líka á niðurleið?

Screen Shot 2015-08-26 at 12.56.00

Á myndinni fyrir ofan sést að meðal aldur allra keppenda hefur einnig verið á niðurleið og er kominn niður í 26.6 ár hjá körlum og 27.6 ár hjá konum. Merkilegt þykir að meðalaldur kvenna er töluvert hærri en hjá körlum öll árin.

En hvað með dreifingu aldurs milli sæta? Raða yngri keppendur sér að meðaltali ofar í sæti heldur en þeir eldri? Til að komast að því var keppendum skipt í fjóra flokka. Efsti, annar, þriðji og neðsti fjórðungur.

Efsti fjórðungur: Sæti 1-10 eða 1-11

Annar fjórðungur: Sæti 11-20 eða 12-21

Þriðji fjórðungur: Sæti 21-30 eða 22-31

Fjórði fjórðungur: Neðstu 10-12 sætin

Niðurstöður:

Screen Shot 2015-08-24 at 22.45.35 Screen Shot 2015-08-24 at 22.45.43

Athyglisvert að sjá hvað mismunur á meðalaldri eftir sætum var gríðarlega mikill árið 2015 hjá bæði konum og körlum – því yngri sem þú varst, því líklegri varstu til að ná topp sætum. Einu árin sem munurinn var svona mikill var 2010 hjá konunum og 2010 og 2012 hjá körlunum.

Það má velta fyrir sér hvort þetta mikla umrædda álag á heimsleikunum 2015 hafi spilað inní og yngri keppendur hafi þolað betur álagið og hafa þar af leiðandi endað ofar. 

Einnig er athyglisvert að skoða fjölda keppenda sem eru 30 ára eða eldri. Aðeins 15% keppanda hjá körlunum voru 30 ára eða eldri árið 2015, en árið 2010 var þessi tala 38%. Kvennamegin er mun algengara að keppendur séu komnir yfir þrítugt.

Screen Shot 2015-08-24 at 22.53.53

Að lokum:

Forvitnilegt verður að fylgjast með þessari þróun næstu árin og hvort Crossfit sé ekki að verða íþrótt þar sem 22-26 ára gamlir iðkendur þoli betur álagið yfir þessa 3-4 keppnisdaga eða hvort að árið í ár hafi verið þar undantekning á. Meðalaldur keppenda er að lækka og er kominn niður í 26.6 hjá körlunum og 27.6 hjá konunum. Hlutfall þeirra sem eru yfir 30 fer sífellt lækkandi og var aðeins sjöundi hver keppandi hjá körlunum í ár yfir þrítugt. Eftir því sem fólk á aldrinum 10-16 ára fara í síauknum mæli að stunda þessa íþrótt, býst undirritaður ekki við neinu öðru en að þessi þróun haldi áfram.