Heim / Viðtöl / Þröstur Ólason, úr kraftlyftingum í Crossfit

Þröstur Ólason, úr kraftlyftingum í Crossfit

Þröstur Ólason er 27 ára gamall Reykvíkingur, kraftlyftingamaður og Crossfit íþróttamaður. Þröstur hefur keppt í kraftlyftingum og aflraunum í mörg ár en hefur nýverið snúið sér að Crossfit og er því meðal sterkustu Crossfit iðkennda landsins. Þröstur keppti með liði Crossfit Reykjavíkur á heimsleikunum í Crossfit í júlí, togar enn þann daginn í dag 300 kg + í réttstöðulyftu og stefnir ekki á það að láta sig hverfa frá keppnis crossfitti á Íslandi.

 

Hvenær byrjaðir þú í kraftlyftingum/aflraunum – hvort æfðiru meira?

Mín fyrsta keppni var Íslandsmeistaramót í réttstöðulyftu sumarið 2009 en fyrir það var ég búinn að stunda lyftingar í nokkra mánuði.

Ég æfði kraftlyftingar mun meira enda var ég að upplagi kraftlyftingamaður en aflraunirnar voru æfðar yfir sumartímann enda öll aflraunamót að sumri til hér heima auk þess sem það var fínt að fá smá fjölbreytni í æfingaárið.

Hver var íþróttabakgrunnurinn þinn fyrir það?

Ég æfði handbolta og fótbolta með KR frá barnsaldri upp í 3.flokk.

Á hvaða mótum kepptiru í aflraunum og kraftlyftingum?

Það gæti orðið mjög langur listi ef ég ætti að fara ítarlega í það en ég hef keppt á tveim heimsmeistaramótum, einu evrópumóti, ógrynni af Íslands og bikarmeistaramótum, Sterkasta Manni Íslands aðalkeppni og -105.kg flokki, Vestfjarðavíking, Austfjarðatrölli og ótal fleiri keppnum.

Þröstur-3 minni

Hvað áttu best í kraftlyftunum þremur?

Allar þessar tölur taka mið af keppnis þyngdum þar sem dómarar skera útum hvort lyftan sé gild eða ekki en ekki æfingaþyngdum.

Hnébeygja 390.kg

Bekkpressa 255.kg

Réttstöðulyfta 340.kg

Þessar tölur eru framkvæmdar á mótum þar sem búnaður var leyfður.

Bestu tölurnar “raw” á æfingu:

Hnébeygja: 325 kg

Bekkpressa: 185 kg

Afhverju ákvaðstu að hætta í þessum íþróttum og snúa þér að Crossfit?

Það var bara þannig að fyrir seinasta mótið mitt í kraflyftingum var ég alveg að fá nóg og dreymdi um að gera eitthvað allt annað. Crossfit varð fyrir valinu enda ekki svo galin hugmynd enda með góðan bakgrunn í styrk og agi úr fyrri íþróttum til staðar.

Daginn eftir seinasta mótið mitt fór ég og réri í fyrsta skipti á róðravél og vissulega dó næstum enda 112.kg þá og útþaninn eins og vatnsblaðra en það var svona fyrsta skrefið í áttina að Crossfit.

Þröstur-5 minni

Hvað var fyrsta wodið sem þú tókst?

Ég man ekki nákvæmlega hvert mitt fyrsta wod var en það var í Crossfit Reykjavík og innihélt kassahopp, réttstöðulyftu og fleira skraut sem ég man ekki en ég man að ég kláraði undir tímaþaki sem var sigur útaf fyrir sig þá.

Stuttu seinna tók ég King Kong enda æfingar sem liggja nokkuð vel fyrir hjá mér. Tíminn var 3:00 en ætli maður bæti ekki þann tíma fyrir áramót.

Hvenær ákvaðstu að reyna fyrir þér í Crossfit Reykjavík liðinu?

Frederik kærasti Annie sagðist vilja sjá mig reyna fyrir mér í úrtakshóp fyrir liðið, ég sló til, var valinn og sé ekki eftir því í dag.                

Hvernig finnst þér frábrugið það að æfa Crossfit og að æfa kraftlyftingar og aflraunir?

Í Crossfit er augljóslega mun meiri fjölbreytileiki á æfingum en í kraftlyftingum og eða aflraunum.

Það er meira æfingaálag í Crossfit en á sama tíma gátu kraftlyftingarnar og aflraunirnar setið alveg jafn mikið í manni þrátt fyrir að æfa 4-5x í viku á móti Crossfit æfingum sem eru ca. 12x í viku hjá mér.

Áherslur eru einnig talsvert öðruvísi, en í Crossfit er mikið horft á skilvirkni og að framkvæmd sé góð og rétt á meðan í t.d. aflraunum var nær oftast hugsað um að koma hlutnum frá A-B.

Nú býrðu að töluverðum styrk vegna fyrri íþrótta, hversu erfitt eða auðvelt finnst þér vera að ná upp þolinu?

Get aldrei sagt að mér finnist auðvelt að ná upp þolinu því ég hef ekki ennþá náð þolinu upp eins og ég vil hafa það. En eins og komandi tímabil er sett upp verður þolið aukið til muna og styrk reynt að halda uppi á sama tíma!

Hvernig var að keppa með liði Crossfit Reykjavíkur á heimsleikunum í Crossfit?

Það eitt að komast á heimsleikana í Crossfit tel ég vera afrek útaf fyrir sig en þetta var er frábær tími og mikil upplifun.

Að keppa á móti Rich Froning og Jason Khalipa er ekki „every day business“ eins og Snorri Björnsson myndi segja það.

Hverjar voru væntingarnar ykkar fyrir keppnina?

Ég lét það útur mér að ég vildi ná betri árangri en íslensk lið hafa náð á heimsleikunum en það er að mig minnir best 16.sæti. Það rættist ekki í þetta skipti en við liðið byrjuðum ekki nógu vel til að geta átt séns á top 15 þetta árið en það kemur annað ár eftir þetta!

Hvernig kom það til að þú þurftir nánast eins þíns liðs að lyfta 250 kg réttstöðulyftu 21 sinnum?

Anna Hulda lenti í því leiðinlega atviki að meiðast á fyrsta keppnisdegi eða í sund + réttstöðulyftu orminum.

Í fyrstu var talið að við þyrftum að draga okkur úr keppni vegna meiðsla hennar en hún þrjóskaðist til og hélt áfram! Við pöruðum okkur saman því það var álitslegasti kosturinn í þessari stöðu, ég sagði henni að þetta væri ekkert mál, við myndum klára þetta í sameiningu. Saman tókum við 8-7-6 250 kg réttstöðulyftu og bar muscle up óbrotið á tímanum 6:04.

Þröstur-13 minni

Hvað tekur við eftir heimsleikana? Undirbúa þig frekar fyrir 2016 keppnistímabilið eða fara aftur í kraftlyftingarnar?

Kraftlyftingarnar munu fá að bíða aðeins lengur uppi á hillu, þær fara ekki langt!

Núna er bara einsett markmið að bæta allt það sem bæta má í hinum ýmsum æfingum tengdum Crossfit svo maður komi sterkari á komandi mót og nái vonandi að stríða öðrum fyrir ofan mann!